Færsluflokkur: Bloggar

Afleitur Kastljósmaður.

Mikið var Helgi Seljan afleitur og slakur í viðtali hans við Þór Saari vegna skrifa þess síðarnefnda um ofbeldisverk sem má rekja til efnahagsástandsins í dag.

Þór var skilmerkilegur og svaraði undanbragðalaust, þ.e. ef ekki hefðu komið til frammígrip og gaspur Helga Seljan þannig að í miðri setningu var Þór Saari ekki gert kleift að svara á fullnægjandi hátt.

Sem áhorfanda Sjónvarps var mér misboðið. Mér sem og fleirum er gert að greiða 17000 kr. í RÚV árlega hvort sem mér líkar betur eða verr, en þarna fékk Samfylkingargosinn að vaða áfram í ófyrirleitni sinni.

Mér, Framsóknarmanninum var misboðið en óska Þór Saari til hamingju með góða frammistöðu þrátt fyrir að við ramman reip Samfylkingar væri að draga.


Keðjuverkun allskonar.

Það er staðreynd að óhæfuverknaður getur valdið keðjuverkun, þannig að eitt verk leiðir gjarnan til annarra og fleiri.

Það er tilgangslaust að stinga hausnum í sandinn og afneita þeirri staðreynd að bágar aðstæður ákveðinna hópa hrinda gjarnan af stað röð ofbeldis- og óhæfuverka eins og við höfum fregnað síðustu daga.

Eitt tilfelli innbrota geta orðið tilefni fleiri slíkra, kynferðisafbrot geta valdið fleiri slíkum, og ofbeldisverk sem orsakast af innheimtuaðgerðum, oft þannig að fótum er kippt ofan af einstaklingum, eða þeim þykir tilveru sinni ógnað geta auðveldlega orðið hrina slíkra verknaða sem jafnvel leiða til manndrápa.

Hvað sem afbrotasérfræðingum og öðrum sem mótmæla staðhæfingum á borð við þessa líður, þá er þetta einfaldlega staðreynd sem orsakast af sálfræðilegum toga. Dagfarsprútt fólk getur verið haldið undirliggjandi veikleika sem brýst ekki fram nema aðstæður þær skapast að verður kveikjan að jafnvel hrylilegustu verkum.

Vammlaus og dagfarsprúð manneskja getur, án þess að vera sér þess meðvituð um undirliggjandi veikleika, ef þær aðstæður skapast að sér þykir tilveru og líf lagt í rúst, umbreyst í persónu sem er hættuleg sér, öðrum og umhverfi sínu.

Ég þykist skrifa af eigin reynslu. Á þeim stað sem ég vann á til skamms tíma gat maður aldrei verið fullkomlega öruggur. Ég sá oft hversdagslegar manneskjur verða árásargjarnar, og til alls vísar. Reyndar kom þá áfengisneysla þar að og jafnvel annarra og ólöglegra efna.

Ég votta aðstandendum fórnarlambsins á lögmannsstofunni, sem og ættingjum árásamannsins samúð mína og vona að sá sem fyrir árásinni varð grói sára sinna og komist til fullrar heilsu á ný.


Eldfimt ástand.

Barátta fyrir réttlæti og sanngirni verður ekki háð með ofbeldi og offorsi, ekki unnin með því að valda neinum líkamlegu eða andlegum skaða né það að valda skemmdum og eyðileggingu á hlutum og eigum annarra.

Mahatma Gandhi á Indlandi, blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King í Bandaríkjunum, og svo mannréttindaleiðtoginn Nelson Mandela í Suður Afríku gerðu sér þetta ljóst, háðu sjálfstæðis- og réttindabaráttur sínar friðsamlega og táknrænt og uppskáru eftir því.

Þeir höfnuðu vopnaðri baráttu, uppskáru frelsi þjóða sinna þó þeir Gandhi og King hafi þurft að gjalda fyrir með lífi sínu, féllu báðir fyrir morðingjahendi.

Í okkar þjóðfélagi eru blikur á lofti, sem má rekja til örvæntingar og vonleysis fólks sem skuldirnar sliga þannig að sumir grípa til örþrifaráða eins og undanfarin dæmi sýna okkur. Öllum ber okkur að greiða skuldir okkar, en það verður að gera okkur öllum skammlaust kleift að standa á þeim skil án þess að nærri sé hoggið. Það er affarsællegast að fara samningaleiðina, ekki síst í afbrigðilegu þjóðfélagsástandi sem við erum nú að upplifa og ganga í gegnum.

Innheimtufyrirtæki mega ekki ganga fram með offorsi og þjösnaskap, allra síst í árferði sem þessu. Þá er stutt í kvikuna á fólki sem gengið er að og í uppnámi og hugarangist er erfitt að sjá hvernig brugðist kann að verða við með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.


Framboð hverra?

Hin og þessi framboð líta dagsins ljós. Síðast var að Samstaða Lilju Mósesdóttur væri í uppnámi vegna þess að "Siggi stormur", annar varaframjóðenda hefði hrökklast upp af standinum og farinn veg allrar veraldar.

Svo ætlar Ástþór Magnússon eina ferðina enn að bjóða sig fram til forseta. Þekkir hann ekki sinn vitjunartíma eða er þetta árátta og þráhyggja?

Framboð til forseta og Alþingis er ekki neitt að hafa gaman af né það að hafa þjóðina að fíflum. Við kjósendur erum meira virði en það.


Rúnar.

Hverjir fengu Óskarinn í ár fyrir besta leik kvenna og karla í aðal og aukahlutverkum? Hef ekki grænan grun! Hverjir fengu Óskarinn fyrir bestu kvikmynd ársins, bestu förðun, bestu leikstjórn og svo framvegis? Því miður ég er alger nörd og fáviti þegar að þessum málum kemur!

Hverjir fengu svo Edduna fyrir besta leik karla og kvenna í aðal og aukahlutverkum? Hverjir fyrir fengu Edduna fyrir bestu kvikmynd ársins, bestu leikstjórn og svo framvegis. Mér til mikillar ánægju bar Rúnar Rúnarsson höfuð og herðar yfir alla. Kvikmynd hans Eldfjall stóð upp úr með allri virðingu fyrir öðrum sem tilnefndir voru.

Rúnar Rúnarsson, til hamingju með frábæran árangur. Þú átt fyrir höndum glæsta framtíð og ég er stoltur af að hafa verið nágranni þinn um skeið.


Skynjun dýranna sem við finnum ekki.

Ég hef alltaf verið áhugamaður um dulræn mál án þess að hafa upplifað neitt í þá áttina svo orð sé á gerandi og tekið öllum sögnum með fyrirvara.

Dýrin er sögð hafa yfirskilvitlegan næmleika, sjá og skynja ýmislegt sem við ekki verðum vör við. Í fjölskyldunni var hundur fyrir rúmum 40 árum sem ég er viss um að hafi verið skyggn. Plútó, hundurinn okkar var eitthvað uppsigað við a.m.k. 2 fjölskyldur, gelti að þeim og ef einhver úr þeim fjölskyldum nálgaðist hann, hrökk hann undan og jafnvel pissaði í sig af hræðslu.

Á heimili mínu er dísarpáfagaukur sem kallast Polli. Polli er mikil félagsvera og vill helst vera í návist annarra, fagnar mér þegar ég birtist með því að segja á sinn hátt "halló"! Góður félagi með sterka og góða návist.

Það eru þó tvö atvik sem ég velti fyrir mér og hef jafnvel áhyggjur af. Rétt fyrir áramót hringdi síminn í herbergi mínu og Polli var á öxl minni. Það var pabbi sem hringdi. En svo skjótt sem samtalinu lauk rekur Polli upp skelfingarvein, flýgur út í horn og hamast þar uns hann flýr undir náttborðið. Ég náði taki á honum þar, hann var titrandi og móður af skelfingu sem ég veit ekki af hverju stafaði. Tókst þó að róa hann niður uns hann var eins og hann átti að sér.

Núna síðdegis, 2. mars kom ég heim eftir erindi út í bæ. Polli fagnaði mér vel, fljótur að koma sér fyrir á öxlinni á mér og ég settist með hann fyrir framan sjónvarpið hvar hann virtist una sér vel. En skyndilega kemur angistarvein frá fuglinum og hann flýgur að baðherbergisdyrunum sem stóðu opnar, en hann flýgur á vegginn fyrir ofan þær, fellur niður og inn í baðherbergið fer hann og staðnæmist í horni þess, með angistarveinum og það sem mér fannst óhuggulegast að hann hafði meitt sig, blóðblettir voru upp um vegginn án þess að ég gæti séð sár á honum.

Ég náði að fanga hann í hendur mínar, hann titraði allur og andardrátturinn ör og slitróttur. Eftir að hafa talað rólega við hann, umlukinn lófum mínum og strokið honum létt yfir róaðist hann. Ekki hef ég fengið neina skýringu á ótta hans.

Þessa stundina er Polli minn
á handlegg mínum, sallarólegur að snyrta fjaðrirnar sínar. Vonandi sækja engar illar vættir að honum framar. Annars er mér að mæta. Polli minn á miklu meira og betra skilið.þ


Meginskylda RÚV.

Aðfararnótt 1. mars kom jarðskjálfti. Frekar vægur en ekkert að marka, hvar voru upptökin? Um hálftíma síðar reið yfir annar og það talsvert öflugri.

Allan tímann þagði RÚV. Maður rétt vonaði að upptökin, miðað við styrkleika skjálftanna, að þau væru sem næst okkur í Reykjavík og grennd, því að því lengra sem þau væru, þeim mun meiri hætta á tjóni, slysum og jafnvel manslífum.

Loksins á hefðbundnum fréttatíma skýrði RÚV frá að skjálftarnir væru við Helgafell, nálægt Hafnarfirði.

RÚV er stöð allra landsmanna sem heimtar um 17000 kr á hvert mannsbarn 17 ára og eldra.

Er til of mikils mælst að það skýri jafnóðum frá fréttum sem kunna að valda einhverjum ugg og áhyggjum?


Hverjum heyrir ábyrgðin til?

Að gera fólki illkleyft eða ókleyft að verða sér úti um og halda frumþörfum sínum, að hafa í sig og á sem og að eiga heimili sín óáreitt er beinlínis glæpur gegn því sem viðkomandi stjórnvöld þurfa að svara fyrir og sækja til saka.

Það er ekki ásættanlegt að fólk þurfi að leita til hjálparstofnana í ölmusu eftir fæði og klæðum. Það er heldur ekki ásættanlegt að fólk sem í góðri trú og trausti á banka og önnur fjármagnsfyrirtæki skuli þurfa að heyja baráttu upp á líf og dauða til að halda þaki sínu yfir höfuðið eftir að sömu bankar og fjámagnsfyrirtæki reyndust hafa beitt fagurgala og tálsýnum á sandi byggð.

Það er ekki ásættanlegt að stjórnvöld sigi þessum sömu fyrirtækjum á þetta sama fólk, og það þvert ofan í loforð þeirra sjálfra með fyrirheitum um "skjaldborg"! Ástæðan: Hræðsla við erlenda kröfuhafa og vogunarsjóði!

Það er heldur ekki ásættanlegt að sömu bankar haldi leiguverði í hæstu hæðum. Fólk greiðir leigu langt umfram sanngirni. Það er ekki ásættanlegt að félagsþjónustur haldi líka leigu á íbúðum sínum langt fyrir ofan getu þannig að til er fólk sem er á vergangi og sefur í kjallaratröppum, strætóskýlum og bekkjum í almenningsgörðum. Þetta viðgengst í henni Reykjavík.

Stjórnvöldum sem seldu skuldabréf í okkar nafni til útlendra fjárglæpamanna á hálfvirði sem aftur innheimta skuldara á fullvirði skal stefnt fyrir lög og dóm og taka á sig afleiðingar gjörða sinna.

Það verður í öllu falli kosið til Alþingis á næsta ári.


Landráð.

Ríkisstjórnin tók við arfaslæmu búi. Svo slæmu að líklega er ekki hægt að jafna við frá og um aldamótin 1900.

En engin ríkisstjórn hefur brugðist svo svakalega eins og ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gert. Gefið loforð um að ekki verði gengið að fólki í greiðsluvandræðum, ekki skuli almenningur gjalda fyrir glæpi fjármagnsaflanna og fleira í þeim dúr. Allt svikið á svívirðilegan hátt.

Skemmst að segja, þá hefur þessi stjórn sigað vogunarsjóðaglæpahyski á heimili þjóðarinnar, ætlað henni að borga fyrir icesavekrimmapakkið, leyft verðbólgunni að leika lausum hala í formi verðtryggingar með tilheyrandi hörmungum og jafnvel haft í hótunum við fólkið sem alvöru ríkisstjórn á að vera í forsvari fyrir. Þetta á að heita VINSTRI stjórn.

Ríkisstjórnin núverandi hefur gert sig seka um glæpi gegn þjóðinni. Því skal hún verða sótt til saka og gert að svara fyrir illgjörðir sínar.

 

 

 


Framtíðin björt?

Víðar syrtir í álinn í efnahagsmálum en á Íslandi.

Við erum þessa dagana að horfa upp á örvæntingu Grikkja sem sjá svartnættið eitt framundan og við hljótum að finna til samkenndar með þeim, minnug haustsins 2008 á Íslandi þegar vonir okkar og bjartsýni voru slegnar út af borðinu og lánshæfi og álíka einkunnir hrundu úr ágætiseinkunn í það að vera undir núlli. Frændur okkar Írar eru ekki í góðum málum, ekki Spánverjar og Portúgalir heldur og jafnvel önnur lönd í álfunni horfa ekkert upp á sérlega bjarta tíma.

Erfitt fyrir skussa í hagfræði eins og mig að meta hvað þessum hamförum veldur, maður finnur þetta aðeins á eigin skinni og eigin pyngju. Við vorum á bullandi góðærisfylleríi, lifðum í dýrlegum fagnaði en allt í einu þraut veigarnar, ekki deigur dropi eftir svo nú hrjá okkur vægast sagt óbærilegir timburmenn.

En timburmenn hverfa er frá líður. Afréttarar slá aðeins á fráhvörfin í skamman tíma og sprúttsölum góðærisins sem héldu að okkur "gullnu veigunum" má ekki hleypa að með sinn görótta varning. Allsgáð og með skýra og skynsama hugsun og hugarfarið heilbrigt tekst okkur að komast í gegnum "þynnkuna" en aðgátar er þörf.

Ég er sannfærður um að okkur tekst þetta. Við erum vel upplýst þjóð og með skynsemina og þekkinguna að vopni eru okkur allir vegir færir. Við megum bara ekki láta neikvæðni og niðurrifshugarfar ráða för, heldur framsýni og dug.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband