31.10.2012 | 01:57
Yfir bæjarlækinn að sækja vatnið.
Grasið er ekki nærri alltaf grænna hinum megin. Allt frá byrjun hruns hafa allskyns gylliboð dunið á fólki erlendis frá, einkum frá Noregi sem manni virðist þjást af alvarlegum mannaflaskorti.
Gott og vel, en það gleymist að minna fólk á og vekja athygli að víða um land er vöntun á fólki í hin ýmsu störf og til þess að fylla upp í þau skörð eru útlendingar ráðnir í til lengri eða skemmri tíma.
Margt fólk kemur ekki auga á þau lífsgæði sem fylgir búsetu hér og þar um byggðir landsins. Þó að Noregur sé sjálfsagt ágætur er það ekki öllum að skapi að vera útlendingur í svo til ókunnu landi.
Að velja sér búsetu innanlands er valkostur sem vert er að íhuga og hrinda í framkvæmd. Ég hef búið þriðjung ævi minnar á Kirkjubæjarklaustri sem er mjög fjölskylduvænn staður og ég gæti hugsað mér búsetu þar á nýjan leik eða annars staðar ef aðstæður dagsins í dag kæmu ekki í veg fyrir það.
Það eru víða búsældalegir bæir og sveitir sem má alveg benda fólki á að íhuga. Það er gott að búa í Reykjavík, en hún á að vera einn af mörgum valkostum og höfuðborgarsvæðið allt.
Þegar ég ferðast um Ísland nægir mér ekki að sjá eingöngu fjöll, fossa, hveri og annað þess háttar. Ég vil líka hitta fyrir heimafólk staðanna sem ég vitja og kynnast háttum þess og högum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.