28.8.2012 | 03:25
Gamalt blogg frá 11. september 2007.
Sumarið að baki og þar með leyfið líka.
Ég snéri til vinnu minnar að afloknu sumarfríi þann 11. september. Í sjálfu sér engin tíðindi. Þetta sem og annað tekur enda og hvunndagurinn tekur við. Nú er ég á frívakt næstu vikuna.
Nóttina fyrir vakti ég langt frameftir eins og ég er vanur að gera þegar vaktavika er framundan. Fór að sofa þegar klukkan var langt gengin í fjögur, en áður en ég gekk til náða kveikti ég mér í sígarettu. Þau sem fylgst hafa með mér vita að ég hef verið að búa mig undir að hætta að reykja og með því að taka inn lyfið champix hafði liðið æ lengra á milli þess að ég tendraði í.
En það sem ég vissi ekki þá, þegar ég kveikti í umræddri rettu var að hún yrði sú síðasta. Þvert á það sem flestir gera þegar þeir ætla sér að hætta eru þeir búnir að ákveða daginn og stundina, en ég er lítið fyrir að gera áætlanir fram í tímann, heldur tek ákvarðanir þegar þeim lýstur ofan í hausinn á mér og svo var í þetta skipti.
Þegar ég vaknaði seinnipart dags 11. sept. og fór að búa mig undir vaktina tók ég þá ákvörðun meðan á rakstrinum stóð að nú væri veður til að hætta að reykja! Og viti menn mín ágætu, ég hef ekki snert á einum einasta kistunagla síðan nóttina forðum og það gengur bara ótrúlega vel, betur en ég gat ímyndað mér. Fyrstu 3 sólarhringana bragðaði ég ekki kaffi, því það hefur alltaf tilheyrt að kveikja sér í rettu um leið. En nú held ég að ég njóti þessa drykkjar betur en áður, líklega vegna þess að bragðlaukarnir eru næmari, búinn að drekka 3 bolla síðan í morgun.
Það er víst bannað að auglýsa lyfseðilskyld lyf, en ég ætla samt að mæla með champix. Það kom á markað á þessu ári og er framleitt gagngert til að hjálpa fólki að losna við nikótínfíknina. Öndvert við önnur hjálpartæki eins og plástra, tyggjó, og púst inniheldur champix ekkert nikótín. Ég kærði mig ekkert um fyrstnefndu hlutina þar sem þeir dæla áfram nikótíninu í mann og ég tel það litla lausn. Ég veit um fólk sem er búið að japla á nikótíntyggjói árum saman og fest á sig plástra, er beinlinis háð þessu og þessi "hjálparmeðöl" eru rándýr, slaga upp í sígarettuverð.
Þetta lyf sem ég nota tek ég næstu vikur, það er rándýrt líka, 4 vikna skammtur kostar 10.000 kall en það er einn þriðji, 1/3 af gjöldum sem fóru í reykingar og ég að fenginni reynslu annarra sem ég þekki og hætt hafa með notkun lyfsins ætti samkvæmt því að vera frír og frjáls að þessu loknu. Þyngd mín hefur hins vegar aukist verulega, matarlystin meiri og svo er ég sólginn í sælgæti allskonar. Ég tek bara á því síðar!!!
En "dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni". Ég er sigurviss og vilji minn er einbeittur, en Það er ekki þar með sagt að ég falli ekki, ekkert er 100% öruggt í tilverunni, en ég er samt staðráðinn með sjálfum mér að berjast til sigurs og hætta að dæla peningum mínum í kjaftana á einhverjum tóbaksauðhringjum og hrægömmum vestur í Ameríku!
Að lokum vil ég láta þess getið að ég á 3 óopnaða pakka af Winston sígarettum, og þeir eru gefins hverjum þeim sem nennir að bera sig eftir þeim og enn er fastur í viðjum nikótíns og þeim venjum sem fylgja neyslunni.
» 3 hafa sagt sína skoðun
10.09.2007 19:40:21 / Valdimar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.