28.8.2012 | 02:59
Gamalt blogg frá 23. mars 2007.
Tíðarfar, pólitík og annað.
Þegar ég vaknaði um kl. 18:30 var stormur með snörpum hviðum í Vesturbænum og víðar. Ég heyrði strax að nokkrir lausamunir voru farnir að fjúka til á svölunum svo það var ekkert annað að gera en að kippa þeim inn í skjól. Það var svo sem ósköp hressandi að koma út í kröftugan vindinn og hann svipti af mér svefndrunganum um leið.
Meðan ég var að búa mig að heiman sá ég og heyrði í Margréti Sverrisdóttur og Ómari Ragnarssyni á Stöð 2 tilkynna um nýtt stjórnmálaafl og framboð. Íslandshreyfingin heitir það víst. Umhverfisvænt til hægri! Það er stórt orð Hákot, og fyrir þeirra hönd er ég ekkert fjarska bjartsýnn á gengi þeirra í kosningunum. Þetta framboð of seint á ferðinni og það þarf að róa stíft til að afla einhvers fylgis á stuttum tíma. Nafnið virðist eiga að höfða til þjóðerniskenndar, svo þau ætla greinilega að mylja úr Frjálslynda flokknum og ég tel þau ætli einnig að reyna að ná til kjósenda Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Einhvern veginn hef ég aldrei getað séð Ómar Ragnarsson sem flokksleiðtoga, hans heimavöllur er þar sem hann hefur verið síðustu 30-40 árin með sína afburða sjónvarpsþætti og í fréttamennsku og þar á hann að halda áfram að vera. Margrét gerði mistök að yfirgefa Frjálslynda, því þar hefði hún átt möguleika að ná inn á þing sem efsti maður í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Fólk verður líka að geta tekið ósigri innan eigin raða sem annars staðar, en ekki hlaupa frá borði í fússi eins og hún gerði. En vandamál Frjálslyndra fyrrverandi og nú eru ekki mín.
Vaktin var annars annasöm. Fólk var að innrita sig á hótelið fram til klukkan að ganga 3 í nótt, það sem kom með næturflugi til Keflavíkur. Einnig komu allnokkrir sem urðu veðurtepptir í Reykjavík og komust ekki til Akureyrar, hvorki landleiðina né loftleiðina og beiddust gistingar. Svona tíðarfar getur líka aukið á viðskiptin! Ég man t.d. eftir nokkrum atvikum að þegar skollið hefur á með blindhríð og ófærð í Reykjavík að fólk úr úthverfunum, t.d. Breiðholti, Grafarvogi og nágrannabyggðum hefur orðið veðurteppt í miðbænum og þurft að leita húsaskjóls á hótelum. En það eru orðin allnokkur ár síðan það hefur skollið á slíkt aftakaveður að götur hafa fyllst af snjó þannig að fólk hefur setið fast í bílum sínum eða hrakist undan vindi og ofankomu.
Skyldi það hafa eitthvað með hlýnun jarðar að gera?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.