28.8.2012 | 01:16
Gamalt blogg frá 18. febrúar 2008.
Raunir ferðamanns.
Maður nokkur frá vesturálfu vitjaði Íslands, og til að dvelja 3 nætur í Reykjavík valdi hann elsta hótel miðborgarinnar sem náttstað.
Sáttur og rólegur var hann og lét lítið yfir sér. Kvöldið áður en halda skyldi á brott sagði hann vakthafa í móttökunni að hann þyrfti að ná flugi árla morguns og fékk þau boð á móti að ef hann óskaði eftir flugrútu þá yrði það kl. 5 morguninn eftir. Honum fannst það harla gott og bað um vakningu kl. 04:30 sem var stillt á herbergissíma hans. Jafnframt kvaðst hann vilja gera upp gistinguna við vakthafa, en nei, ekki alveg strax, hann ætlaði að skreppa aðeins og fá sér einn bjór, síðan kæmi hann og gerði allt klárt.
Tíminn leið og það líklega 3 eða 4 og klukkan að ganga 2 um nóttina birtist sá úr vesturálfu og hafði greinilega fengið sér fleiri bjóra en einn! Vakthafi sá fyrir sér að erfitt myndi fyrir hann að vakna í tæka tíð fyrir flugrútuna.
Til að bæta gráu ofan á svart, kom um kl. 04:30 kona nokkur evrópsk sem átti einnig bókað í áðurnefnda rútu og bað um drullusokk eða eitthvað álíka gagnlegt. Eiginmaðurinn hafði fengið heiftarlega í magann um nóttina, gengið upp og niður og hún vildi þrífa sem hægt væri. Vakthafi sagði að það væri fólk sem sæi um þrif af öllu tagi á hótelinu og bað hana að huga frekar að heilsu eiginmannsins og fékk að vita að hann ætlaði að harka af sér sem hann og gerði og segir ekki frekar af þeim.
Vinur vor úr vesturálfu kom niður of seint, rútan farin en vakthafi sagði að hann gæti enn náð rútunni með því að taka leigubíl niður á B.S.Í. sem hann og gerði eftir að hafa gert upp, en sá var að vonum ansi rykaður og ringlaður.
Vakthafi mætti svo aftur undir kvöld. Þegar hann fór yfir gestalistann sá hann nafn gestsins úr vesturálfu sem hann hafði tékkað út um morguninn og hélt sem snöggvast að hann hefði gleymt að munstra hann út úr tölvunni.
En skýringar fengust skjótt. Vinurinn hafði náð rútunnni niður á Umferðamiðstöð.
En þegar rútan var lögð af stað færðist slík ró yfir hann að hann sofnaði væran í sæti sínu og gleymdi öllum áhyggjum og veseni, þangað til hann vaknaði í Reykjavík sem hann taldi sig vera að yfirgefa. Harla óvæntur túr til baka!
Vinur vor kom síðar um kvöldið að borði vakthafa, bljúgur og skömmustulegur í senn og bað um að vera vakinn kl. 04:30 því hann þyrfti að ná í flugrútuna kl. 05:00.
Skemmst frá að segja var hann kominn niður og mættur stundvíslega.
18.02.2008 05:20:06 / Valdimar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.