11.7.2012 | 20:18
Langræknin, hið djöfullega eðli.
"Það er mannlegt að reiðast en það er djöfullegt að vera langrækinn",Þetta sagði þjóðkunn kona sem var í vægast sagt í umdeildum málum eftir bankahrunið, og þurfti með réttu að svara fyrir vafasama fjármálagjörninga hennar og eiginmanns síns. Siðferði þeirra hjóna var á þann hátt að mörgum ofbauð, þau fengu milljarða afskriftir á kúluláni sem þau tóku á uppgangstímum á 1. áratug aldarinnar.
Ég ætla ekki að gera þau að umræðuefni hér, heldur það sem kona þessi benti þó réttilega á, að langræknin væri djöfulleg sem hún sannarlega er.
Langræknin tekur semsé á sig djöfullegar myndir og birtist sem ófreskja sem engu eirir, brýtur niður, eitrar samskipti fólks, sundrar fjölskyldum, heilu ættum og vinum, er niðurbrjótandi og skilur eftir sig sviðna jörð, sem birtist í heift og hatri milli þeirra sem síst skyldi.
Í samskiptum fólks getur gengið á ýmsu, sem er eðlilegt. Hafi fólk nægan þroska til að bera þá jafnar það um málin sín á milli og allt fellur í eðlilegan og heilbrigðan farveg á ný.
Öðru máli gegnir um þau sem ekki sjá út fyrir kýrauga sitt. Þar er sífellt verið að núa salti í sárin sem annars ættu að vera löngu gróin og alið í hjarta sér hatur út af orðum og gjörðum sem látin voru einhvern tíma falla í hita leiks.
Þessu fólki er fyrirmunað að skilja hvað orðið fyrirgefning merkir, slær á útrétta sáttarhönd eða hafnar henni vegna þess að það er að "vinna í sjálfu sér" hvað sem það merkir! Þetta fólk er pikkfast í fortíðinni og er fyrirmunað að líta fram á veginn sjálfu sér til uppbyggingar, lífsfyllingar og aukins þroska. Svo hitt fólkið sem er frosið í geðinu og setur lás á öll samskipti.
Því fólki vorkenni ég, en ég óska því alls hins besta og vona að það snúi frá alvarlegri villu síns vegar. Margar þessa manneskjur hafa lokað á sína nánustu og lifir innantómu lífi í einsemd og biturleika.
Megi það snúa frá villu síns vegar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.