2.3.2012 | 22:49
Skynjun dýranna sem við finnum ekki.
Ég hef alltaf verið áhugamaður um dulræn mál án þess að hafa upplifað neitt í þá áttina svo orð sé á gerandi og tekið öllum sögnum með fyrirvara.
Dýrin er sögð hafa yfirskilvitlegan næmleika, sjá og skynja ýmislegt sem við ekki verðum vör við. Í fjölskyldunni var hundur fyrir rúmum 40 árum sem ég er viss um að hafi verið skyggn. Plútó, hundurinn okkar var eitthvað uppsigað við a.m.k. 2 fjölskyldur, gelti að þeim og ef einhver úr þeim fjölskyldum nálgaðist hann, hrökk hann undan og jafnvel pissaði í sig af hræðslu.
Á heimili mínu er dísarpáfagaukur sem kallast Polli. Polli er mikil félagsvera og vill helst vera í návist annarra, fagnar mér þegar ég birtist með því að segja á sinn hátt "halló"! Góður félagi með sterka og góða návist.
Það eru þó tvö atvik sem ég velti fyrir mér og hef jafnvel áhyggjur af. Rétt fyrir áramót hringdi síminn í herbergi mínu og Polli var á öxl minni. Það var pabbi sem hringdi. En svo skjótt sem samtalinu lauk rekur Polli upp skelfingarvein, flýgur út í horn og hamast þar uns hann flýr undir náttborðið. Ég náði taki á honum þar, hann var titrandi og móður af skelfingu sem ég veit ekki af hverju stafaði. Tókst þó að róa hann niður uns hann var eins og hann átti að sér.
Núna síðdegis, 2. mars kom ég heim eftir erindi út í bæ. Polli fagnaði mér vel, fljótur að koma sér fyrir á öxlinni á mér og ég settist með hann fyrir framan sjónvarpið hvar hann virtist una sér vel. En skyndilega kemur angistarvein frá fuglinum og hann flýgur að baðherbergisdyrunum sem stóðu opnar, en hann flýgur á vegginn fyrir ofan þær, fellur niður og inn í baðherbergið fer hann og staðnæmist í horni þess, með angistarveinum og það sem mér fannst óhuggulegast að hann hafði meitt sig, blóðblettir voru upp um vegginn án þess að ég gæti séð sár á honum.
Ég náði að fanga hann í hendur mínar, hann titraði allur og andardrátturinn ör og slitróttur. Eftir að hafa talað rólega við hann, umlukinn lófum mínum og strokið honum létt yfir róaðist hann. Ekki hef ég fengið neina skýringu á ótta hans.
Þessa stundina er Polli minn
á handlegg mínum, sallarólegur að snyrta fjaðrirnar sínar. Vonandi sækja engar illar vættir að honum framar. Annars er mér að mæta. Polli minn á miklu meira og betra skilið.þ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.