Framtíðin björt?

Víðar syrtir í álinn í efnahagsmálum en á Íslandi.

Við erum þessa dagana að horfa upp á örvæntingu Grikkja sem sjá svartnættið eitt framundan og við hljótum að finna til samkenndar með þeim, minnug haustsins 2008 á Íslandi þegar vonir okkar og bjartsýni voru slegnar út af borðinu og lánshæfi og álíka einkunnir hrundu úr ágætiseinkunn í það að vera undir núlli. Frændur okkar Írar eru ekki í góðum málum, ekki Spánverjar og Portúgalir heldur og jafnvel önnur lönd í álfunni horfa ekkert upp á sérlega bjarta tíma.

Erfitt fyrir skussa í hagfræði eins og mig að meta hvað þessum hamförum veldur, maður finnur þetta aðeins á eigin skinni og eigin pyngju. Við vorum á bullandi góðærisfylleríi, lifðum í dýrlegum fagnaði en allt í einu þraut veigarnar, ekki deigur dropi eftir svo nú hrjá okkur vægast sagt óbærilegir timburmenn.

En timburmenn hverfa er frá líður. Afréttarar slá aðeins á fráhvörfin í skamman tíma og sprúttsölum góðærisins sem héldu að okkur "gullnu veigunum" má ekki hleypa að með sinn görótta varning. Allsgáð og með skýra og skynsama hugsun og hugarfarið heilbrigt tekst okkur að komast í gegnum "þynnkuna" en aðgátar er þörf.

Ég er sannfærður um að okkur tekst þetta. Við erum vel upplýst þjóð og með skynsemina og þekkinguna að vopni eru okkur allir vegir færir. Við megum bara ekki láta neikvæðni og niðurrifshugarfar ráða för, heldur framsýni og dug.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband