30.1.2012 | 06:29
Sótt í sólina.
Það virðist sem veðurfarið að undanförnu hafi aukið sölu til sólarlandanna svokölluðu, uppgrip hjá ferðaskriftofum sem selja ferðir þangað.
Það er ágætt að vita að einhverjir hafa þó efni á að veita sér þennan "lúxus" á þessum síðustu og verstu tímum, en það er áreiðanlega ekki fólkið sem stendur í biðröðum við hjálparstofnanir eftir matarúthlutunum norpandi í risjóttu veðri og kulda.
Ég hef aldrei farið í þessar "sólarferðir", mér nægir sá skammtur sem úthlutað er á sumrin og finnst meira að segja nóg um birtuna allan sólarhringinn um Jónsmessuleytið svo ég forða mér undan henni oft á tíðum inn í hús og held mig bak við gluggatjöld sem hleypa engri birtu í gegnum sig.
Raunar nýt ég mín einna besst um þetta leyti árs, frá október og fram í apríl þegar birtunnar fer að gæta fyrir alvöru.
En það má líka geta þess að Ísland hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn líka um háveturinn. Það er margt sem trekkir að. Menningarstarfssemin í Reykjavík t.d. leiðir fólk hingað, náttúran hjúpuð snjó og í klakaböndum hrífur, og síðast en ekki síst eru það norðurljósin, þau toppa ferðina hjá þeim flestum.
Gamli málshátturinn "hollt er heima hvað" er í fullu gildi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.