Færsluflokkur: Bloggar
28.8.2012 | 03:25
Gamalt blogg frá 11. september 2007.
Sumarið að baki og þar með leyfið líka.
Ég snéri til vinnu minnar að afloknu sumarfríi þann 11. september. Í sjálfu sér engin tíðindi. Þetta sem og annað tekur enda og hvunndagurinn tekur við. Nú er ég á frívakt næstu vikuna.
Nóttina fyrir vakti ég langt frameftir eins og ég er vanur að gera þegar vaktavika er framundan. Fór að sofa þegar klukkan var langt gengin í fjögur, en áður en ég gekk til náða kveikti ég mér í sígarettu. Þau sem fylgst hafa með mér vita að ég hef verið að búa mig undir að hætta að reykja og með því að taka inn lyfið champix hafði liðið æ lengra á milli þess að ég tendraði í.
En það sem ég vissi ekki þá, þegar ég kveikti í umræddri rettu var að hún yrði sú síðasta. Þvert á það sem flestir gera þegar þeir ætla sér að hætta eru þeir búnir að ákveða daginn og stundina, en ég er lítið fyrir að gera áætlanir fram í tímann, heldur tek ákvarðanir þegar þeim lýstur ofan í hausinn á mér og svo var í þetta skipti.
Þegar ég vaknaði seinnipart dags 11. sept. og fór að búa mig undir vaktina tók ég þá ákvörðun meðan á rakstrinum stóð að nú væri veður til að hætta að reykja! Og viti menn mín ágætu, ég hef ekki snert á einum einasta kistunagla síðan nóttina forðum og það gengur bara ótrúlega vel, betur en ég gat ímyndað mér. Fyrstu 3 sólarhringana bragðaði ég ekki kaffi, því það hefur alltaf tilheyrt að kveikja sér í rettu um leið. En nú held ég að ég njóti þessa drykkjar betur en áður, líklega vegna þess að bragðlaukarnir eru næmari, búinn að drekka 3 bolla síðan í morgun.
Það er víst bannað að auglýsa lyfseðilskyld lyf, en ég ætla samt að mæla með champix. Það kom á markað á þessu ári og er framleitt gagngert til að hjálpa fólki að losna við nikótínfíknina. Öndvert við önnur hjálpartæki eins og plástra, tyggjó, og púst inniheldur champix ekkert nikótín. Ég kærði mig ekkert um fyrstnefndu hlutina þar sem þeir dæla áfram nikótíninu í mann og ég tel það litla lausn. Ég veit um fólk sem er búið að japla á nikótíntyggjói árum saman og fest á sig plástra, er beinlinis háð þessu og þessi "hjálparmeðöl" eru rándýr, slaga upp í sígarettuverð.
Þetta lyf sem ég nota tek ég næstu vikur, það er rándýrt líka, 4 vikna skammtur kostar 10.000 kall en það er einn þriðji, 1/3 af gjöldum sem fóru í reykingar og ég að fenginni reynslu annarra sem ég þekki og hætt hafa með notkun lyfsins ætti samkvæmt því að vera frír og frjáls að þessu loknu. Þyngd mín hefur hins vegar aukist verulega, matarlystin meiri og svo er ég sólginn í sælgæti allskonar. Ég tek bara á því síðar!!!
En "dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni". Ég er sigurviss og vilji minn er einbeittur, en Það er ekki þar með sagt að ég falli ekki, ekkert er 100% öruggt í tilverunni, en ég er samt staðráðinn með sjálfum mér að berjast til sigurs og hætta að dæla peningum mínum í kjaftana á einhverjum tóbaksauðhringjum og hrægömmum vestur í Ameríku!
Að lokum vil ég láta þess getið að ég á 3 óopnaða pakka af Winston sígarettum, og þeir eru gefins hverjum þeim sem nennir að bera sig eftir þeim og enn er fastur í viðjum nikótíns og þeim venjum sem fylgja neyslunni.
» 3 hafa sagt sína skoðun
10.09.2007 19:40:21 / Valdimar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2012 | 02:59
Gamalt blogg frá 23. mars 2007.
Tíðarfar, pólitík og annað.
Þegar ég vaknaði um kl. 18:30 var stormur með snörpum hviðum í Vesturbænum og víðar. Ég heyrði strax að nokkrir lausamunir voru farnir að fjúka til á svölunum svo það var ekkert annað að gera en að kippa þeim inn í skjól. Það var svo sem ósköp hressandi að koma út í kröftugan vindinn og hann svipti af mér svefndrunganum um leið.
Meðan ég var að búa mig að heiman sá ég og heyrði í Margréti Sverrisdóttur og Ómari Ragnarssyni á Stöð 2 tilkynna um nýtt stjórnmálaafl og framboð. Íslandshreyfingin heitir það víst. Umhverfisvænt til hægri! Það er stórt orð Hákot, og fyrir þeirra hönd er ég ekkert fjarska bjartsýnn á gengi þeirra í kosningunum. Þetta framboð of seint á ferðinni og það þarf að róa stíft til að afla einhvers fylgis á stuttum tíma. Nafnið virðist eiga að höfða til þjóðerniskenndar, svo þau ætla greinilega að mylja úr Frjálslynda flokknum og ég tel þau ætli einnig að reyna að ná til kjósenda Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Einhvern veginn hef ég aldrei getað séð Ómar Ragnarsson sem flokksleiðtoga, hans heimavöllur er þar sem hann hefur verið síðustu 30-40 árin með sína afburða sjónvarpsþætti og í fréttamennsku og þar á hann að halda áfram að vera. Margrét gerði mistök að yfirgefa Frjálslynda, því þar hefði hún átt möguleika að ná inn á þing sem efsti maður í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Fólk verður líka að geta tekið ósigri innan eigin raða sem annars staðar, en ekki hlaupa frá borði í fússi eins og hún gerði. En vandamál Frjálslyndra fyrrverandi og nú eru ekki mín.
Vaktin var annars annasöm. Fólk var að innrita sig á hótelið fram til klukkan að ganga 3 í nótt, það sem kom með næturflugi til Keflavíkur. Einnig komu allnokkrir sem urðu veðurtepptir í Reykjavík og komust ekki til Akureyrar, hvorki landleiðina né loftleiðina og beiddust gistingar. Svona tíðarfar getur líka aukið á viðskiptin! Ég man t.d. eftir nokkrum atvikum að þegar skollið hefur á með blindhríð og ófærð í Reykjavík að fólk úr úthverfunum, t.d. Breiðholti, Grafarvogi og nágrannabyggðum hefur orðið veðurteppt í miðbænum og þurft að leita húsaskjóls á hótelum. En það eru orðin allnokkur ár síðan það hefur skollið á slíkt aftakaveður að götur hafa fyllst af snjó þannig að fólk hefur setið fast í bílum sínum eða hrakist undan vindi og ofankomu.
Skyldi það hafa eitthvað með hlýnun jarðar að gera?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2012 | 02:08
Gamalt blogg frá 8. febrúar 2007.
Næturvakt.
Ég vaknaði um kl. 18:30 til að gera mig kláran fyrir vaktina sem byrjaði kl. 19:30 og mun standa til 07.30. Þannig stend ég 12 tíma næturvaktir í 1 viku og n.k. þriðjudagsmorgun byrjar vaktafrí, eða hvíld sem varir í aðra viku.
Ég veit að þetta er ekki fyrir alla, sumir hafa reynt en gefist upp, líkamsklukka þeirra ræður einfaldlega ekki við það. Sjálfur er ég næturhrafn í eðli mínu þannig að þetta hentar mér vel, þó að tímarnir milli kl. 3 og 6 geti verið erfiðir, einkum ef ekkert er að gera. Líkamsklukkan mín byrjar að mótmæla ef adrenalínið sem fylgir erli og önnum er ekki í framleiðslu.
Félagslega er maður mjög einangraður meðan vaktirnar standa yfir, fer heim til að sofa og vakna til að vinna. Samskipti við fjölskyldu og vini í algjöru lágmarki en maður bætir sér það upp frívikuna.
En þegar maður metur kostina og gallana eru kostirnir heldur fleiri hvað mig varðar, sérstaklega að hafa heila viku fyrir sig sjálfan og geta sinnt öllum sínum erindum án þess að þurfa að snapa sér frí á miðjum vinnudegi eða nýta stopula matartíma til þessa.
Eftir allt saman þá er ég ekki í eðli mínu þessi dæmigerði "9 til 5 maður".
» 1 hafa sagt sína skoðun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2012 | 01:16
Gamalt blogg frá 18. febrúar 2008.
Raunir ferðamanns.
Maður nokkur frá vesturálfu vitjaði Íslands, og til að dvelja 3 nætur í Reykjavík valdi hann elsta hótel miðborgarinnar sem náttstað.
Sáttur og rólegur var hann og lét lítið yfir sér. Kvöldið áður en halda skyldi á brott sagði hann vakthafa í móttökunni að hann þyrfti að ná flugi árla morguns og fékk þau boð á móti að ef hann óskaði eftir flugrútu þá yrði það kl. 5 morguninn eftir. Honum fannst það harla gott og bað um vakningu kl. 04:30 sem var stillt á herbergissíma hans. Jafnframt kvaðst hann vilja gera upp gistinguna við vakthafa, en nei, ekki alveg strax, hann ætlaði að skreppa aðeins og fá sér einn bjór, síðan kæmi hann og gerði allt klárt.
Tíminn leið og það líklega 3 eða 4 og klukkan að ganga 2 um nóttina birtist sá úr vesturálfu og hafði greinilega fengið sér fleiri bjóra en einn! Vakthafi sá fyrir sér að erfitt myndi fyrir hann að vakna í tæka tíð fyrir flugrútuna.
Til að bæta gráu ofan á svart, kom um kl. 04:30 kona nokkur evrópsk sem átti einnig bókað í áðurnefnda rútu og bað um drullusokk eða eitthvað álíka gagnlegt. Eiginmaðurinn hafði fengið heiftarlega í magann um nóttina, gengið upp og niður og hún vildi þrífa sem hægt væri. Vakthafi sagði að það væri fólk sem sæi um þrif af öllu tagi á hótelinu og bað hana að huga frekar að heilsu eiginmannsins og fékk að vita að hann ætlaði að harka af sér sem hann og gerði og segir ekki frekar af þeim.
Vinur vor úr vesturálfu kom niður of seint, rútan farin en vakthafi sagði að hann gæti enn náð rútunni með því að taka leigubíl niður á B.S.Í. sem hann og gerði eftir að hafa gert upp, en sá var að vonum ansi rykaður og ringlaður.
Vakthafi mætti svo aftur undir kvöld. Þegar hann fór yfir gestalistann sá hann nafn gestsins úr vesturálfu sem hann hafði tékkað út um morguninn og hélt sem snöggvast að hann hefði gleymt að munstra hann út úr tölvunni.
En skýringar fengust skjótt. Vinurinn hafði náð rútunnni niður á Umferðamiðstöð.
En þegar rútan var lögð af stað færðist slík ró yfir hann að hann sofnaði væran í sæti sínu og gleymdi öllum áhyggjum og veseni, þangað til hann vaknaði í Reykjavík sem hann taldi sig vera að yfirgefa. Harla óvæntur túr til baka!
Vinur vor kom síðar um kvöldið að borði vakthafa, bljúgur og skömmustulegur í senn og bað um að vera vakinn kl. 04:30 því hann þyrfti að ná í flugrútuna kl. 05:00.
Skemmst frá að segja var hann kominn niður og mættur stundvíslega.
18.02.2008 05:20:06 / Valdimar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2012 | 01:03
"ÓLI LITLI".
Eins og sum ykkar vita lauk ég störfum mínum á Hótel Borg í vetur og gekk það ekki hávaðalaust né í sérstakri vinsemd.
Fer ekki nánar út í það hér, nema ég byrja að semja andmælabréf við starfslok og gaf mér góðan tíma í það, smíðaði beinagrind utan um ritvinnsluna, fór yfir daglega leiðrétti ýmsar villur, og snéri og sneiddi eftir því sem við átti en vistaði ávallt í drögum.
Ég var næstum búinn að fullklára ritsmíðina, leiðrétta ritvillur og lagfæra setningar að mestu, en átti eftir að slá botninn í bréfið, segja niðurlags- og lokaorð og var í þann veginn að ganga frá því en ákvað að láta bíða með að reka lokahnykkinn á tölvupóstinn þar til daginn eftir, enda áliðið og kominn tími á svefn.
Til að byrja með gaf ég þessari ritsmíð vinnuheitið "Óli litli" meðan hún beið í drögunum, enda heitir viðkomandi stjóri Ólafur, en endanlegt nafn á efninu átti ég eftir að ákveða.
Eftir að hafa rennt yfir efnið kvöldið eftir, harla ánægður ákveð ég að loka skrifum uns ég tæki til við daginn eftir, en er ég ætla að smella á "loka" verður mér á að ýta á "senda!" Mér verður það ljóst um leið og ÚPS! Tölvupósturinn til "Óla litla" ratar óvænt inn á tölvu hótelstjórans!!!
Það eru því tæpar líkur að hann gefi mér góð meðmæli eða umsögn eftir þetta
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2012 | 04:01
Reynslan besti skólinn.
Að vera stöðugt að hnoðast í fortíðinni og þykjast vera að vinna í sjálfum sér er slæmur ávani.
"Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja" segir einhvers staðar.
En það þýðir ekki að grenja út úr sér allt vit til æviloka, fyrr má nú vera!
Gott að nýta reynslusarpinn án þess að gera úr honum dramatík.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2012 | 02:45
Gamalt blogg.
23.03.2011 04:48:20 / Valdimar
Bréf til óprúttinnar lögfræðistofu.
Eftirfarandi er bréf sem ég sendi á Lögfæðistofu Reykjavíkur og sýnir hversu ákveðnir aðilar í stéttinni halda að þeir geti hagað málum eftir sínum geðþótta og hentugleika þegar þeim býður svo við að horfa. Bréfið skýrir sig sjálft og er skólabókardæmi hversu sumir í greininni telja sig geta vaðið fram í hroka sínum og stærilæti þó góðar undantekningar séu þar á:
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson,
Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Á dögunum sendir þú mér stefnu vegna meintra meiðyrða á hendur Margrétar Lilju og Sigurðar Stefánssonar Ararúni 34 Garðabæ.
Við vorum 4 eða 5 sem þarna mættum á tilsettum degi og tíma, 22.mars kl.10.00. Skemmst frá að segja mættu hvorki þú né umbjóðendur þínir, við töfðumst í rúman 1/2 tíma, en skráð er í bækur Héraðsdóms Reykjavíkur að við hefðum mætt og okkur tjáð að okkur yrðu greiddar ómaksþóknanir vegna vanrækslu ykkar.
Því lýsi ég að málinu er lokið af minni hálfu að undanskildum ómaksbótum frá ykkar hendi.
Þessi framkoma ykkar var svívirðilegur dónaskapur og móðgun í okkar garð og ekki þýðir fyrir ykkur að senda mér frekari stefnur því ég mun ekki taka við þeim því þið og umbjóðendur ykkar hafið fyrirgert öllum rétti til málssókna á hendur mér og hinum þeim sem sýndu þá sjálfsögðu kurteisi að mæta.
Því skuluð þið láta mig hér eftir í friði, hef reyndar frétt að ein konan sem mætti 22.mars hafi fengið aðra stefnu í hendur að mæta 31. mars!
Ég segi álit mitt hreinskilninslega: "Þetta er lúalegt og ekki sæmandi lögfræðistofu sem vill viðhafa fagleg og siðleg vinnubrögð, en þarna hefur orðið heldur betur misbrestur á!"
Valdimar Vilhjálmsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2012 | 05:52
Nútímans Djöfulsins makt.
Kínverjar eru rísandi magn Djöfulsins sem Napóleón forðum varaði við og líkti við sofandi risa sem vaknaði með ósköpum.
það býr meira en við sjáum í fljótu bragði. Kínverska sendiráðið í Reykjavík og vefsíða þess, kíkjum á það. Ólíkt öðrum er ekki gefinn kostur á umræðum varðandi lýðréttindi, málfrelsi, persónufrelsi og öðru. Dalai Lama og Falung Gong eru eins og að reka eitursprautu í rassgatið á kommúnistaelítuna, eða öllu heldur fjármagnsstéttina í þessu "stéttlausa þjóðfélagi" þar á toppi er sú sem situr á milljörðunum.
Húang Núbó eða hvað þetta heitir er aðeins leppur kommanna í Kína. Hann og hans hyski á ekki að fá að leggja undir sig heilu lendurnar hér. Kínverjar mega koma hingað sem gestir og aðrir ferðamenn, en að byggja undir rassgatið á þeim einhver hundruð einbýlishúsa og lúxushótela fyrir restina af þessu dóti, nei takk! Það skal hegða sér og akta sem aðrir ferðamenn.
Það býr meira og skuggalegra undir hjá kommaelítunni í Peking en við getum tekið við og samþykkt.
Bloggar | Breytt 21.7.2012 kl. 06:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2012 | 20:18
Langræknin, hið djöfullega eðli.
"Það er mannlegt að reiðast en það er djöfullegt að vera langrækinn",Þetta sagði þjóðkunn kona sem var í vægast sagt í umdeildum málum eftir bankahrunið, og þurfti með réttu að svara fyrir vafasama fjármálagjörninga hennar og eiginmanns síns. Siðferði þeirra hjóna var á þann hátt að mörgum ofbauð, þau fengu milljarða afskriftir á kúluláni sem þau tóku á uppgangstímum á 1. áratug aldarinnar.
Ég ætla ekki að gera þau að umræðuefni hér, heldur það sem kona þessi benti þó réttilega á, að langræknin væri djöfulleg sem hún sannarlega er.
Langræknin tekur semsé á sig djöfullegar myndir og birtist sem ófreskja sem engu eirir, brýtur niður, eitrar samskipti fólks, sundrar fjölskyldum, heilu ættum og vinum, er niðurbrjótandi og skilur eftir sig sviðna jörð, sem birtist í heift og hatri milli þeirra sem síst skyldi.
Í samskiptum fólks getur gengið á ýmsu, sem er eðlilegt. Hafi fólk nægan þroska til að bera þá jafnar það um málin sín á milli og allt fellur í eðlilegan og heilbrigðan farveg á ný.
Öðru máli gegnir um þau sem ekki sjá út fyrir kýrauga sitt. Þar er sífellt verið að núa salti í sárin sem annars ættu að vera löngu gróin og alið í hjarta sér hatur út af orðum og gjörðum sem látin voru einhvern tíma falla í hita leiks.
Þessu fólki er fyrirmunað að skilja hvað orðið fyrirgefning merkir, slær á útrétta sáttarhönd eða hafnar henni vegna þess að það er að "vinna í sjálfu sér" hvað sem það merkir! Þetta fólk er pikkfast í fortíðinni og er fyrirmunað að líta fram á veginn sjálfu sér til uppbyggingar, lífsfyllingar og aukins þroska. Svo hitt fólkið sem er frosið í geðinu og setur lás á öll samskipti.
Því fólki vorkenni ég, en ég óska því alls hins besta og vona að það snúi frá alvarlegri villu síns vegar. Margar þessa manneskjur hafa lokað á sína nánustu og lifir innantómu lífi í einsemd og biturleika.
Megi það snúa frá villu síns vegar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2012 | 03:03
Hestamenn í sláttinn í Reykjavík.
Borgarstjórnin hefur afrekað fátt, heldur sig í felum frá kjósendum Reykjavíkur og telst atburður ef borgarfulltrúar sjást eða heyrast og sem fæstir vita hvað heita eða hverjir eru, nema þá helst Jón Gnarr borgarstjóri sem nennir ekki einu sinni að renna fyrir fyrsta laxinum í Elliðaánum, og svo Dagur nokkur varaskeifa Samfylkingar.
Eitt er það í sparnaði borgarstjórnar, að stórfækka sláttudögum í Reykjavík, þeim til mikils ama sem þjást af frjónæmi, auk þess sem mörg okkar sakna "grænu teppanna" sem sem nýslegnir grasblettir eru.
Mér hefur dottið í hug hvort ekki megi fá hestamenn hér að sjá um þennan þátt málanna, að slá og hirða töðu handa gæðingum sínum. Þeir gætu lagt inn umsókn að slætti og hverjum úthlutaður "kvóti" eða ákveðin svæði og gert að slá grasblettina með reglulegu millibili.
Er þetta ekki alveg upplagt? Borgarsjóður þarf ekki að leggja í kostnað vegns þessa, hestamenn ná í ágætistöðu handa fákum sínum, og svo er ég farinn að sakna ilmandi lyktarinnar af nýsleginni töðu sem alltaf minnir á ljúfa bernskudaga úr sveitinni.
Bloggar | Breytt 12.7.2012 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)